Fréttir
29.04.12
Alţjóđaţing Istanbul 2012

Eftirfarandi pistil flutti Hildur Thors, fyrrum umdæmisstjóri, á 25. umdæmisþingi Inner Wheel 28. apríl 2012. Hún ásamt Sigríði J Guðmundsdóttur sóttu þingið fyrir Íslands hönd. Þingið var haldið dagana 17.-21. apríl 2012. Skýrt er frá helstu lagabreytingum sem gerðar voru:

Það eru um tvö ár síðan við Erla byrjuðum að vinna saman í umdæmisstjórn IW. Það kom fljótt upp að á árinu 2012 yrði alþjóðaþing Inner Wheel í Istanbul og við ákváðum strax að við myndum fara saman, Erla með umboð klúbbanna og ég sem hennar fylgdarmaður. Erla er hins vegar kona forsjál og framsýn. Á síðasta umdæmisþingi lagði hún fram þá tillögu að ef hún forfallaðist yrði ég hennar staðgengill. Um áramótin sl fór það að verða ljóst að þetta yrði etv veruleikinn og í febrúar sl var það staðreynd. Ég var auðvitað tilbúinn til að vera hennar staðgengill en mér þótti það frekar óþægileg staðreynd að vera eini fulltrúi Íslands á rúmlega 2000 manna þingi í Istanbul. Sem betur fer rættist úr og var Sirrý, forseti IW á Selfossi og fyrrum alþjóðaþingsfari tilbúin til að fara með mér. Ég held að það hljóti að vera erfitt að vera einn á svona þingi og mæli með að fleiri fulltrúar reyni að fara saman ef mögulegt er.

Við fengum góða styrki frá félögum á Selfossi, bæði Inner Wheel og Rotary og þökkum við kærlega fyrir það. Einnig greiddi umdæmið farareyri fyrir einn þátttakanda. Vil ég einnig nota tækifærið og þakka henni Hjördísi okkar fyrir fiskana sem hún gerði en hún skar fiska úr laxaroði og setti á lyklakippuhring, gáfum við þá völdum vinum á þinginu og vöktu þeir mikla hrifningu.

 

Ég ætla nú að kynna fyrir ykkur þær tillögur sem teknar voru fyrir og held mig við þær sem okkur þóttu skipta mestu máli. Við vorum með umboð til að kjósa um tillögur frá sex klúbbum og frá umdæminu.

  

Fyrstu tillögurnar voru frá alþjóðastjórninni sjálfri. Þar vakti helst athygli okkar tillaga til skýringar á því hverjir megi tilnefna frambjóðendur til æðstu embætta international Inner Wheel. Til þess að það sé mögulegt verður land að hafa svokallað national governing body. Það höfum við ekki, hefðum etv getað myndað slíka yfirstjórn ef við hefðum verið vakandi fyrir því en með tillögu 3 sem flutt var síðar var alveg komið í veg fyrir það því nú verður land að hafa 2 umdæmi til að geta myndað national governing body. Ég verð að viðurkenna að mér var brugðið. Ég steig í pontu og vakti athygli á því að þarna væri verið að gera hluta Inner Wheel félaga að minna gildum félögum. Tillagan var nú samt samþykkt. Forseti International Inner Wheel verður því ekki íslenskur í bráð. 

Dönsku fulltrúarnir voru svo almennilegir að í næsta fundarhléi komu þær til okkar og buðu okkur að vera með í þeirra national governing body. Fyrstu viðbrögð min voru efasemdir, en ég lofaði að segja ykkur frá þessari uppástungu hér í dag og fá ykkar viðbrögð.

  

Tillaga 5 lagði til að fjölda stjórnarmanna (board directors)  i alþjóðastjórninni yrði fækkað úr 16 í 8. Vakti þessa tillaga nokkra umræðu, virðist sem margir fulltrúar Evrópu séu svolítið smeykir við þá miklu útbreiðslu sem Inner Wheel hefur fengið í Indlandi og óttist að þær eigi eftir að taka alþjóðafélagsskapinn yfir. Breytingatillaga til mildunar kom fram um að fullrúarnir yrðu 12, sú tillaga var naumlega felld og upprunalega tillagan var einnig felld þannig að þessi breyting náði ekki fram en á örugglega eftir að koma fram á næsta þingi.

  

Tillaga 17 var sú sem mesta athygli vakti og greinilega var beðið eftir. Tillagan var um breytingu á inntökuskilyrðum félaga í Inner Wheel klúbb. Lagt var til að núverandi inntökuskilyrði væru felld út, en þau eru :

a) Kona sem er skyld Rotarý félaga/fyrrum Rótarý félaga, Inner Wheel félaga/fyrrum Inner Wheel félaga

b) Eiginkona Rótarýfélaga

c) Kvenkyns Rótarýfélagi eða fyrrum Rótarýfélagi

d) Fyrrum kvenkyns félagi í Rotaract eða eiginkona/móðir Rotaract félaga

e) Kona sem hefur tekið þátt í prógrammi á vegum International Rotary (GSE, skólastyrkir etc)

 

Í stað þessara töluliða var lagt eftirfarandi til:

a) Kona tengd rotaryfélaga/fyrrum rotarýfélaga

b) Kona tengd Inner Wheel félaga/ fyrrum Inner Wheel félaga

c) Kona sem er boðið er að gerast félagi – háð því skilyrði að meirihluti klúbbfélaga sé samþykkur.

 

Miklar umræður sköpuðust um erfiðleika við að fá nýja félaga og var þetta talin leið til að geta boðið hvaða þjónustulundaðri konu sem er til þátttöku. Ítrekað var að ekki væri verið að klippa á tengslin við Rótarý og að hver klúbbur fyrir sig geti ákveðið hvort ótengdum aðila verði boðin aðild. Reyndar kom fram breytingartillaga um að meirihluti meðlimi þyrfti alltaf af hafa þessi gömlu tengsl en sú tillaga var felld.

 Tillagan var samþykkt með miklum meirihluta og braust út mikill fögnuður. Var alþjóðaforseta, Catherine Refarbert ákaft fagnað en greinilegt var að hún hafði barist fyrir þessari tillögu.

 

Aðrar tillögur féllu algjörlega í skuggann af þessari og voru margar þeirra meira til að skýra betur stjórnarskránna eða smávægilegar tillögur.

 

Í lok þingsins var tilkynnt um næsta verkefni International Inner Wheel. Stuðningi við menntun stúlkna í Bolivíu er nú lokið. Nokkur vonbrigði voru með heildarupphæðina sem safnaðist en aðeins 1.48 pund safnaðist per félaga á þessum þremur árum. Næsta verkefni kallast “bjartari framtíð” og er til styrktar öllum börnum í heiminum. Hver klúbbur ákveður sitt verkefni og getur hagað því að vild. Alþjóða Inner Wheel fylgist bara með hvað gert er en gefur engar frekari leiðbeiningar. Logoið er brosandi sól.

  

Þetta var fróðleg og lærdómsrík ferð, Inner Wheel er svo miklu meira en blasir við okkur hér á Íslandi.

laugardagur 20 apríl 04 2019
Nýjustu fréttir
Gleðilegt sumar kæru Inner Wheel konur.Ég vil minna á umdæmisþingið, sjá nánar undir...
13. janúar hittust 52 Inner Wheel konur frá öllum klúbbunum í Umdæmi 136 í Hannesarholti og...
Haldið verður upp á alþjóðadag IW þann 13. janúar 2018 kl. 12 á hádegi í...