Fréttir
23.06.15
Frétt frá ţinginu í Kaupmannahöfn

Alþjóðaþing Inner Wheel var haldið í Kaupmannahöfn 5.-9. maí.

Átta konur frá Íslandi mættu á þingið. Kristjana Þórdís Ásgeirsdóttir umdæmisstjóri, IW Hafnarfjörður, Jana Guðlaugsdóttir verðandi umdæmisstjóri, IW Keflavík, Soffía Heiða Hafsteinsdóttir úr IW Keflavík, Marinella R. Haraldsdóttir IW Hafnarfjörður, Þóra Grétarsdóttir IW Selfoss, Hjördís Þorfinnsdóttir IW Selfoss og Sif Jónsdóttir úr IW Görðum. Að auki var með okkur Ragnheiður Jónsdóttir dóttir Marinellu. Mikill fjöldi kvenna sótti þingið og voru þingfulltrúar hátt á þriðja þúsundið.

Þingið var haldið í Tivoli Congress Center. Apha Gupta alþjóðaforseti setti þingið og bauð gesti velkomna og síðan var málþing, Symposium, þar sem hún hafði fengið fjórar konur til að velja fulltrúa af yngri kynslóðinni til að hafa framsögu um þrjú málefni; Framtíðarsýnina 2024 á aldarafmæli IW, Konur, hvernig getur við gert þær sterkari og Hvernig getum við gert jörðina okkur að betri stað til að lifa á.

Fyrsta kvöldið var vináttukvöld, þar sem konur skiptust á gjöfum og kynntust öðrum konum. Dönsku IW konurnar höfðu í tilefni af þinginu útbúið pappírsrósir sem skreyttu umhverfið. Opnunarhátíðin var síðan á fimmtudagsmorgninum. Ýmislegt var boðið upp á. Fyrst var atriði frá Indlandi með dans og hugvekju. Þá söng stúlknakór úr St. Anne skólanum, ungliðasveit Tívolí bandsins lék á trommur og pikkólóflautur, leikhópur frá Odense flutti okkur fróðleik um H.C. Andersen og leikkona sagði okkur sögu H.C.Andersen af hænunni í hænsnahúsinu sem missti fjöður (Det er ganske vist) og svo flaug fiskisagan.

Eftir hádegi hófust svo raunveruleg þingstörf með lagabreytingum. Sumt var samþykkt og annað fellt, og sumt féll þar sem atkvæðafjöldi var ekki nægur til að samþykkja tillögu. Um kvöldið var hópnum skipt og vorum við nokkrar sem fórum í loðskinnauppboðshúsið. Þar var tekið glæsilega á móti okkur. Fyrst fyrirlestur um fyrirtækið og síðan klukkutíma skoðunarferð þar sem við sáum loðskinn af ýmsum gerðum, aðallega mink. Allt skinn frá Íslandi er boðið þarna upp. Endaði þetta með kvöldverði og tískusýningu.

Föstudagurinn var svipaður. Þær konur sem ekki voru með atkvæði fóru hins vegar í bæinn og skoðuðu sig um. Um kvöldið klæddum við okkur upp og vorum fjórar í íslenskum búningi. Hátíðakvöldverðurinn var í Öksnehallen. Mjög vel gekk að ljúka þingstörfum og lokahátíðin var síðan á laugardeginum. Þar var ýmislegt skemmtilegt í boði. Viðtakandi alheimsforseti Charlotte De Vois frá Belgíu kynnti sig og einkunnarorð næsta árs sem eru "Unique and United" og einnig var kynnt til sögunnar verðandi forseti sem kemur frá Nígeríu.

Næsta þing verður haldið í Melbourne í Ástralíu og voru þingkonur frá Ástralíu hæstánægðar þegar það var tilkynnt. Fróðlegt og ánægjulegt þing sem vonandi skilar einhverju nýju til framtíðarinnar. Nánari upplýsingar um hvernig lagabreytingar fóru og af þinginu verða kynntar á umdæmisþinginu 29. ágúst í Hafnarfirði.

http://www.internationalinnerwheel.org/closing-ceremony.html

laugardagur 20 apríl 04 2019
Nýjustu fréttir
Gleðilegt sumar kæru Inner Wheel konur.Ég vil minna á umdæmisþingið, sjá nánar undir...
13. janúar hittust 52 Inner Wheel konur frá öllum klúbbunum í Umdæmi 136 í Hannesarholti og...
Haldið verður upp á alþjóðadag IW þann 13. janúar 2018 kl. 12 á hádegi í...