Fréttabréf 2007-2008

 

FRÉTTABRÉF
 
 
Kæru Inner Wheel félagar.
 
 Merkilegt hvað tíminn líður fljótt. Mér finnst eins og það séu aðeins nokkrar vikur síðan umd.stjórn Keflavíkur kom hingað í Garðabæinn með heljarmikinn farangur, sem allur reyndist tilheyra Inner Wheel.

Eftir gott kaffispjall og notalega samverustund kvöddu þær Keflavíkurkonur og nýja umd.stjórnin sat eftir með spurnarsvip. Hvað áttum við að gera og á hverju átti að byrja? Sem betur fer voru vinkonur okkar úr IW Keflavík búnar að fullvissa okkur um allan þann stuðning og hjálpsemi sem í þeirra valdi stæði, og þökkum við mikið vel fyrir alla þeirra elskusemi í okkar garð.

En mikið rétt, - daginn er að lengja og “senn fer vorið á vængjum yfir flóann”. Okkur í umd.stjórninni finnst sem nú sé seinni hálfleikur starfsins að byrja og erum komnar á fulla ferð að undirbúa umd.þingið sem verður í Safnaðarheimili Vídalínskirkju 24. maí nk.

Umd.stjórn hefur haldið fundi eftir því sem henni hefur fundist þörf á, og hefur hist a.m.k. mánaðarlega frá því í haust, auk þess sem við höfum verið í símasambandi og tölvu-sambandi þess á milli. Þó að nýja heimasíðan okkar “www.innerwheel.is”sé mikið þarfaþing, er hún sárgrætilega lítið notuð og synd að nýta hana ekki betur, því það er nokkuð dýrt að halda úti heimasíðu. Vonandi komast félagar upp á lagið að nýta hana betur.Umd.stjórn hafa borist bréf og kveðjur frá mörgum IW klúbbum sem vilja heyra um IW á Íslandi og starfsemi okkar, og höfum við umd.ritari svarað þeim fyrirspurnum eftir bestu getu. M.a. óskaði IW klúbbur í Fauske í Noregi eftir vináttu- og bréfasambandi við IW klúbb á Íslandi og tók IW klúbbur Hafnarfjarðar að sér að vera í vináttusambandi við þann klúbb. Umd.ritari hefur sent pistil í “ Newsletter “ til birtingar í maí heftinu, og vonum við að pistillinn verði birtur í því blaði.

Kortasalan til styrktar FAAS er í fullum gangi og verður a.m.k. til aprílloka. Við vonum að IW félagar sjái sér fært að styrkja og styðja þetta góða verkefni.
Helsta verkefni umd.stjóra fyrri part vetrar, var að heimsækja alla klúbbana og var það bæði þakklátt og skemmtilegt verkefni. Móttökur voru alls staðar frábærar og vinátta og gleði auðkenndi alla þessa fundi. Þarna voru samankomnar vinkonur sem augsýnilega nutu þess að hittast og og eiga saman kvöldstund með markmið IW að leiðarljósi. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum klúbbunum fyrir frábærar móttökur og alúð sem þær sýndu mér hvar sem ég kom í heimsókn.Dagskrá Umd.þingsins er í stórum dráttum hefðbundin og er birt hér annars staðar í blaðinu. Þegar nær dregur þinginu munum við birta hana í endanlegu formi á heimasíðunni okkar.

Ég vona að sem flestir IW félagar sjái sér fært að koma á umd.þingið í maí og njóti þess að hitta félaga úr öðrum klúbbum, blanda geði og eiga saman sannan IW dag. Ég lýk þessu spjalli með erindi um vináttuna úr Hávamálum, en þar segir:

 

 

                                                “Veistu, ef þú vin átt,
þann er þú vel trúir,
og vilt þú af honum gott geta,
geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta
fara að finna oft”.

 

 
Með Inner Wheel kveðju og góðum óskum til ykkar allra.

                                   

F.h. umdæmisstjórnar

                                    Hlíf Samúelsdóttir,

                                    Umdæmisstjóri IW 2007-2008.

sunnudagur 16 júní 06 2019
Nýjustu fréttir
Gleðilegt sumar kæru Inner Wheel konur.Ég vil minna á umdæmisþingið, sjá nánar undir...
13. janúar hittust 52 Inner Wheel konur frá öllum klúbbunum í Umdæmi 136 í Hannesarholti og...
Haldið verður upp á alþjóðadag IW þann 13. janúar 2018 kl. 12 á hádegi í...