Skýrsla Umdæmisstjóra 2016-2017

Nú þegar starfsárið mitt sem Umdæmisstjóri IW Ísland er senn  á enda fer ýmislegt gegnum hugann og allt er það gott. Þetta hefur verið mikil reynsla, gefandi og auðvitað á köflum krefjandi. Ég hef sagt það áður að sannarlega er IW klúbbur vináttu. Hvar sem ég hef komið í heimsókn til klúbbanna hef ég mætt vinsemd og vináttu. En það er alveg ljóst að við þurfum að gefa í varðandi inntöku nýrra meðlima í okkar raðir, okkur fer stöðugt fækkandi og við þurfum að bretta upp ermar og reyna eftir bestu getu að fá nýja félaga til liðs við okkur. En spurningin er hvað skal gera. Það kom upp sú hugmynd frá einni félagskonu í mínum klúbbi IW Selfoss hvort forseti hvers klúbbs gæti farið í heimsókn á Rótaryfund og kynnt okkar félag svo Rótarymenn geti tekið þetta með heim og breitt út boðskapinn fyrir okkur. Það þarf klárlega að hugsa þessa hluti vel og reyna að finna leið til að bjóða nýja félaga velkomna í okkar flotta félagsskap.

 

En að öllu því skemmtilega sem var á dagskrá hjá mér á árinu.

Maí 2016

Umdæmisþing haldið í Safnaðarheimili Keflavíkurkirkju 28. maí í Umdæmi 136 þar sem ég tók við embættinu  af  Jönu Guðlaugsdóttur. Þingið var mjög vel heppnað í alla staði, tæplega 40 konur úr klúbbunum voru mættar og áttum við góðan dag og gott kvöld saman.

Að þingi loknu tók til starfa ný umdæmisstjórn sem hefur verið afar ánægjulegt og gefandi að starfa með á árinu. Með mér í umdæmisstjórn eru Esther Óskarsdóttir gjaldkeri, Guðbjörg Guðmundsdóttir ritari, báðar úr IW Selfoss eins og ég. Jana Guðlaugsdóttir IW Keflavík fráfarandi umdæmisstjóri og Stefanía Borg Thorsteinsson IW Reykjavík, viðtakandi umdæmisstjóri. Ég þakka þessum frábæru konum kærlega fyrir gott samstarf á liðnum vetri og óska Stefaníu alls hins besta á komandi starfsári.

Næst var að kynna sér nýjan alþjóðaforseta Oluyemisi Alatise sem kemur frá Lagos í Nígeríu, einkunnarorð hennar er „Touch a Heart“ Sem er í íslenskri þýðingu „Snertum hjörtu“. Hún skrifaði einnig pistil sem var afar fallegur og góð næring fyrir hjartað.

Sept. 2016

Dagana 16.-18. sept. var Nordisk Rally haldið á Skagen í Danmörku ég var þar fjarri góðu gamni en í minn stað fór Jana Guðlaugsdóttir fráfarandi umdæmisstjóri.

 Okt. 2016

8. október átti IW Hafnafjörður 40  ára afmæli og Rótarýklúbbur Hafnafjarðar 80 ára afmæli. Átti ég ekki tök á að mæta þar sem ég var stödd erlendis og fór í minn stað Kristjana Þ. Ásgeirsdóttir sem er félagi IW Hafnafjörður og færði hún klúbbnum kerti frá umdæminu sem nunnurnar í Karmelklaustrinu höfðu málað á.

14. október fór ég á þing Rótarýmanna sem haldið var í Digraneskirkju sem var gaman og gefandi að sjá.

18. október heimsótti ég IW Keflavík og átti með þeim góðan fund þar var m.a. vetrardagskráin þeirra var kynnt og það var margt spennandi framundan hjá þeim. Til dæmis 40 ára afmæli klúbbsins. Og þar flutti umdæmisstjóri sitt erindi.

29. október var haldið haustþing klúbbana í umdæmi 136. í Tónlistarskóla Hafnafjarðar. Megin tilgangur þessa þings er að miðla upplýsingum til viðtakandi stjórna og heyra hvernig fundum er háttað hjá hinum klúbbunum og mynda betri tengl á milli kvenna. Mætt var klukkan 10. Skiptum okkur niður í tvær stofur forsetar fyrrverandi , núverandi og verðandi í eina stofu og gjaldkerar og ritarar í aðra stofu. Allir sögðu frá sýnum klúbbi og hinir gátu svo tekið með sér hugmyndir og miðlað reynslu sinni til þeirra sem voru nýjar í starfi. Þetta árið var ákveðið að taka til í pappírum umdæmisins og farið var í gegnum allar gamlar möppur og tekið til og flokkað, afar brýnt og gott framtak til að minnka umfangið á gögnum sem annars þarf að flytja á milli umdæmisstjóra.

Nóv. 2016

9. nóverber fórum við í IW Selfoss í heimsókn til IW Reykjavík á Hótel Sögu. Þar flutti umdæmisstjóri sitt erindi. Á fundinum las forseti klúbbsins Elín Hjartardóttir fundargerð frá stofnfundi IW Ísland sem var mjög gaman að hlusta á. Færði IW Selfoss þeim bók að gjöf með málsháttum og spakmælum sem gaman gæti verið að lesa uppúr á fundum.

15. nóvember heimsótti ég IW Breiðholt á Kringlukrána en þar er þeirra fundarstaður. Þar var með mér Vilborg Eiríksdóttir IW Selfoss. Fundurinn var góður og erindi fundarins var bókakynning. Vorum við kvaddar innilega og óskað góðrar heimferðar en þarna var fyrsti hauststormurinn skollinn á og yfir fjallveg að fara á heimleiðinni.

17. nóvember varð IW Keflavík 40 ára og var hátíðarkvöld í tilefni þess mjög skemmtilegt og glæsilegt. Þar komu með mér þær Nína G. Pálsdóttir og Hjördís Þorfinnsdóttir báðar úr IW Selfoss og áttum við gott kvöld með Keflavíkurkonum.

Jan. 2017

Alþjóðadagur IW 10. janúar er haldinn hátíðlegur ár hvert víða um heim. Þann 10. janúar 1924 stofnar Margaretta Golding fyrsta IW klúbbinn.                                                                                           Þann 7. janúar 2017 komu saman á  Hótel Holti 31 IW kona og fögnuðu þar deginum saman. Geirlaug Þorvaldsdóttir byrjaði á að leiða okkur um sali hússins og segja okkur sögu málverkanna sem þar voru. Stefanía Borg viðtakandi umdæmisstjóri flutti fundargerð stofnfundar IW Ísland umdæmis 136. Þessi dagur fer stækkandi með hverju árinu og er hinn besti vettvangur til að kynnast konunum betur og styrkja vináttuböndin en það er jú eitt af einkunarorðum IW.

11. janúar fór ég á fund hjá IW Kópavogi þeirra fundarstaður er á Cafe Catalína með mér í för var Hjördís Þorfinnsdóttir IW Selfoss. Fundurinn var afar skemmtilegur, þar lásu tvær félagskonur uppúr uppáhalds jólabókum sínum. Þar sátu einnig tveir gestir fundinn. Umdæmisstjóri flutti erindi sitt. Fundurinn var í alla staði góður.

25. janúar var heimsókn mín á fund hjá IW Garðabæ sem haldinn var í sal í Vídalínskirkju. Þar var með mér í för Guðbjörg Guðmundsdóttir félagi í IW Selfoss og ritari Umdæmisins. Þar áttum við gott kvöld og góðan fund þar sem bæjastjóri Garðabæjar Gunnar Einarsson flutti einnig erindi um Garðabæ og það sem þar er á döfinni í framtíðinni varðandi fjölgun íbúa og annað sem fylgir stjórnun bæjarfélags. Vorum við leystar út með bókagjöfum um bæinn þeirra fallega og eru þeim færðar þakkir fyrir það.

8. febrúar er komið að síðustu heimsókn vetrarins í klúbbana en þá fór ég til IW Hafnafjarðar. Þær funda á Kænunni. Þar var eins og allstaðar gott að koma. Með mér á þennan fund fór Hjördís Þorfinnsdóttir IW Selfoss. Áttum við skemmtilegt kvöld með félögum okkar þar.

Mars 2017

Mars einkenndist að undirbúningi fyrir Umdæmisþingið og skipulagi þess sem og apríl enda í mörg horn að líta til að gera þingið sem best og skemmtilegast.

En nú er árið mitt sem umdæmisstjóri senn á enda og þessi dýrmæta lífsreynsla og það traust og sanna vinátta sem mér hefur verið sýnd á þessar vegferð verður seint nógsamlega þökkuð. Mér hlýnar um hjartaræturnar þegar ég hugsa um allar þessar flottu og sterku konur sem starfa þarna innan þessa félags. Vil einng þakka sérstaklega þeim duglegu konum sem sátu í stjórn með mér og studdu við bakið á mér alla leiðina. Sem og öllum félögum mínum í IW Selfoss. Við getum allar  verið stoltar af okkur bæði sem einstaklingum og sem heild.

Hrund Baldursdóttir

sunnudagur 16 júní 06 2019
Nýjustu fréttir
Gleðilegt sumar kæru Inner Wheel konur.Ég vil minna á umdæmisþingið, sjá nánar undir...
13. janúar hittust 52 Inner Wheel konur frá öllum klúbbunum í Umdæmi 136 í Hannesarholti og...
Haldið verður upp á alþjóðadag IW þann 13. janúar 2018 kl. 12 á hádegi í...