Fréttabréf - janúar 2018

Frá umdæmisstjórn

Kæru Inner Wheel félagar

Stjórn Umdæmis 136 óskar ykkur öllum farsældar á nýju ári.

Ótrúlegt en satt. Það er farið að síga á seinni hluta þessa starfsárs og daginn farið að lengja.

Margt búið að gerast á fyrri hluta tímabilsins og allt skemmtilegt.

Fyrir mig hefur verið ómetanlegt að heimsækja klúbbana einn af öðrum utan einn, sem ég heimsæki 31. janúar, og fá tækifæri til að kynnast félagskonum á þeirra heimavelli og sjá samtakamáttinn sem ríkir alls staðar og hvernig þær umvefja hverja aðra með vináttu.

Vil ég nota tækifærið og þakka þeim öllum fyrir hlýjar móttökur.

Við í stjórn Umdæmisins höfum reynt eftir bestu getu að sinna þeim verkefnum sem ætlast er til af okkur og munum halda því áfram með bros á vör.

Við erum jú allt konur á besta aldri, sem stjórnumst ósjálfrátt af markmiðum Inner Wheel.

Haustfundurinn

Haustfundur IW var haldinn í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar 28. október sl. þar sem mættar voru 24 konur. Eftir fundinn var Dómkirkjuloftið skoðað og er mér óhætt að segja að fundurinn hafi tekist vel í alla staði.

Alþjóðadagurinn og 30 ára afmæli umdæmis 136

Nú síðast minntumst við Alþjóðadags Inner Wheel með pomp og prakt í Hannesarholti hinn 13. janúar sl. og fögnuðum 30 ára afmæli Umdæmis 136 um leið með veglegri rjómatertu. Veislustjóri hátíðarinnar var Vilborg E. Kristjánsdóttir, gjaldkerinn okkar.

Það er óhætt að segja að eitt af markmiðum Inner Wheel, að efla mannleg samskipti, hafi verið vel sinnt á þessari samkomu því skráðar voru 52 konur, sem sýnir að þær njóta þess að hittast og gleðjast saman.

Fyrstu sjö núlifandi umdæmisstjórar hvers klúbbs voru síðan heiðraðir með lítilli nælu, slaufu merkta Inner Wheel og félagskonur risu úr sætum.

Að lokum var sungið: „Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur” eftir Jónas Hallgrímsson við undirleik Kristjönu Þ. Ásgeirsdóttur.

Umdæmisþingið

Það er búið að fastsetja stund og stað Umdæmisþingsins okkar. Það verður haldið í Neskirkju laugardaginn 2. júní n.k.og hefst kl. 12. Eftir þingið verður farið í heimsókn í Veröld, hús Vigdísar Finnbogadóttur og í beinu framhaldi í Norræna húsið og snæddur þar kvöldverður, ásamt mökum. Nánari upplýsingar um þingið verða sendar síðar.

Ég kveð ykkur með einkunnarorðum starfsársins: Göngum götuna til góðs og vonast til að sjá ykkur sem flestar á þinginu í vor. 

F.h. umdæmisstjórnar

Stefanía Borg Thorsteinsson

umdæmisstjóri IW 2017-2018

sunnudagur 16 júní 06 2019
Nýjustu fréttir
Gleðilegt sumar kæru Inner Wheel konur.Ég vil minna á umdæmisþingið, sjá nánar undir...
13. janúar hittust 52 Inner Wheel konur frá öllum klúbbunum í Umdæmi 136 í Hannesarholti og...
Haldið verður upp á alþjóðadag IW þann 13. janúar 2018 kl. 12 á hádegi í...