Skýrsla umdæmisstjóra á umdæmisþingi IW í Neskirkju 2. júní 2018

Kæru félagskonur

Nú er enn einu starfsárinu að ljúka hjá Umdæmi 136 og mun þetta vera 31. starfsár þess.

Mér er það bæði ljúft og skylt að greina frá því hvernig atburðarrásin hefur verið í stórum dráttum hjá okkur í stjórninni þetta árið.


Árið hefur verið mér einstaklega lærdómsríkt og  viðburðarríkt. Það sem mun standa upp úr í minningunni er vinskapurinn og öll góðu mannlegu samskiptin sem ég hef átt innan þessa hóps. Það er ekki lítilsvirði og allt ókeypis!


Fyrstu tengsl mín við Alþjóðastofnun IW hófust í júlí þegar Charlotte de Vos fyrrv. Alþjóðaforseti 2015-2016 frá Belgiu var hér á ferð í júlí ásamt barnabörnum sínum tveimur. Hún hafði samband við Kristjönu Guðlaugsdóttur, Jönu, og sagðist hafa áhuga á að hitta IW konur frá Íslandi. Við Jana mættum í Fjöruborðið á Stokkseyri ásamt mökum okkar og áttum góða stund með þessari mjög svo flottu konu.


Einkunnarorðin „Leave a lasting legacy“, komu að þessu sinni frá alþjóðaforseta Inner Wheel, Kapila Gupta en hún er frá  Indlandi. Völdum við að þýða einkunnarorðin „Göngum götuna til góðs“.

 

Í bréfi alþjóðaforsetans segir meðal annars að við konur séum ekki skilgreindar eftir því hverjar við erum heldur hvað við gerum. Í öllum störfum okkar eigum við að ganga götuna til góðs, í smáu sem stóru.


Vigdís, ritarinn okkar, sendi fyrir hönd Inner Wheel á Íslandi bréf til Alþjóðaforseta IW Kapila Gupta frá Indlandi, þar sem hún óskar henni til  hamingju með nýja embættið.


Di Patchett er önnur kona frá Alþjóðasamtökunum sem við í umdæmisstjórninni höfum átt í bréfasamskiptum við. Hún er í alþjóðastjórn IW og er frá New Zealand. Verkefni hennar innan alþjóðastjórnarinnr er m.a. það að fylgjast með hvað klúbbar án umdæma eða klúbbar með eitt umdæmi og enga landsstjórn, séu að aðhafast. Við sendum henni ýmsar upplýsingar um félagsskapinn okkar og sendum myndir frá haustfundinum og alþjóðadeginum, sem trúlega hafa birst á heimasíðu Alþjóðasamtakanna.


Við höfum tekist á við verkefni umdæmisins eftir því sem þau hafa komið fyrir. Stjórnarfundirnir hafa verið 12 talsins, haldnir til skiptis hjá hver annarri og á hinum ýmsu stöðum.


Bæklingur um starfsemi IW var uppfærður og honum dreift í klúbbana um leið og ég heimsótti alla 7 IW klúbbana, einn af öðrum frá október fram í janúarmánuð. Byrjaði í mínum klúbbi IW Reykjavík og endaði í IW Görðum, en sá klúbbur mun taka við stjórninni, undir forystu Mörtu Maríu Skúladóttir.

Þessar heimsóknir voru allar ótrúlega gefandi og skemmtilegar. Vigdís, ritari  og Ágústa forseti IW Reykjavík fylgdu mér á tvo af þessum fundum.

IW klúbbur Keflavík hélt upp á 40 ára afmæli sitt þetta árið og færði Umdæmið þeim lítinn kertastjaka frá listakonunni Koggu. Ég dáist af konum sem búa í Keflavík og þurfa að sækja vinnu í Reykjavík í öllum veðrum. Ég mun seint gleyma rigningunni og rokinu sem buldi á mér í svarta myrkri alla leiðina á fund hjá IW Keflavík. Guði sé lof var hvorki frost né hálka. Það bætti ekki úr að ég lagði seint af stað að heiman og mikið af leiðinni voru vegaframkvæmdir í gangi. Ég var samt fljót að gleyma hrakningunum þegar ég kom úttauguð inn í hlýjuna og félagskonur tóku á móti mér opnum örmum og með bros á vör, Soffía Heiða var þá í forsvari klúbbsins.

Það var svolítið annar bragur á þegar við Vigdís brunuðum yfir heiðina í svörtum eðaljeppa í heimsókn til IW Selfoss, þá leið mér eins og þjóðhöfðinga með einkabílstjóra. 


Í lok september komu saman á Selfossi fráfarandi og núverandi umdæmisstjórn og fóru þar fram formleg stjórnarskipti.

Farið var yfir hlutverk umdæmisstjórnar í stóru og smáu og farið yfir ýmis praktísk atriði. Að afloknum fundi héldum við heim á leið uppfullar af góðum óskum frá þeim Hrund, Esther og Guðbjörgu og fengum í fangið bílhlass af ótal  gögnum sem fylgja embættinu, en í farangrinum fylgdi þungur baggi skammrifi. Samþykkt hafði verið á fráfarandi þingi að fela okkur núverandi stjórn  að afgreiða mál, sem ekki náðist að ljúka á umdæmisþinginu á Selfossi 2017 varðandi það hvort stofna ætti embætti Alþjóðatengils.


Ætlunin var að taka málið fyrir á næsta haustfundi en ekki náðist að kynna málið fyrir félagskonum fyrir þann tíma þannig að nú verður það tekið til afgreiðslu hér á eftir. Við í stjórninni höfum reynt eftir bestu getu að útskýra fyrir félagskonum hvað felst í embætti alþjóðatengils. 


Eftir að hafa kynnt okkur málið frá öllum hliðum, skoðað uppbyggingu embætta í öðrum löndum þar sem um er að ræða mörg umdæmi með eina Landsstjórn og einn National Representative og kynnt okkur kafla í alþjóðalögum Inner Wheel, þar sem fjallað er um lönd með eitt umdæmi og enga landsstjórn (í landsstjórn þarf lágmark 2 umdæmi), þá sannfærumst við betur og betur um það að við, 190 félagskonur, með félagsgjöldin sem einu tekjulind okkar, séum einungis að auka á flækjustigið með því að stofna til embættis alþjóðatengils.


Á umdæmisþinginu 11. okt. 2014 var samþykkt tillaga stjórnar um að kr. 500 af árgjaldinu (kr.3.500) yrði tekið til hliðar og eyrnamerkt sem styrkur í ferðalög erlendis.  Þessi samþykkt er enn í gildi. Miðað við 190 félagskonur þá er þessi styrkur kr. 95 þús. á ári.


Þegar rýnt er í ársreikninga sl. 4 ár þá kemur í ljós að Umdæmi 136 hefur greitt tæplega kr. 900 þús. á þessu fjögurra ára starfstímabili fyrir að senda fulltrúa á okkar vegum á Alheimsþingið í Danmörku og Evrópu- og Norðurlandafundi. Þetta sýnir ljóslega að farið hefur verið langt fram úr fjárheimildum umdæmisins. 


Umdæmisstjórnin leggur til að árgjaldið haldist óbreytt, styrkur til fundahalda erlendis verði hagað í samræmi við það og að við höldum áfram að styrkja og huga að málefnum, sem betur mega fara á heimaslóðum.  


Haustfundur IW var haldinn í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar í hádegi laugardagsins 28. október, á kosningardaginn eins og árið áður og var þátttakan mjög góð. Þar fór fram kynning á embættum forseta, ritara og gjaldkera klúbbanna og létt spjall um hvernig klúbbarnir verja fundum sínum á starfsárinu.

Umræður voru um heimasíðu IW. Fram kom að hún er orðin gömul og erfitt að uppfæra hana, svo vel sé. Kristjana Þ. Ásgeirsdóttir hefur annast síðuna. Vilji var fyrir því á fundinum að fá eina úr hverjum klúbbi til að hittast og koma sér saman um útlit nýrrar síðu áður en hafist er handa. Kristjana tók að sér að fylgja því eftir. Sú nefnd hefur enn ekki tekið til starfa, en vonandi stendur það til bóta.

Á sama fund, undir Önnur mál fjallaði Kristjana E. Guðlaugsdóttir, Jana, um Alþjóðategil frá sínu sjónarhorni og sagði það vera nauðynlegt embætti, ekki síst í krafti upplýsingarmiðlunar. Kristjana lýsti vonbrigðum sínum með afstöðu stjórnar umdæmisins í þessu máli.

Stjórnin hvatti  Kristjönu til að hún útskýrði sín sjónarmið bréflega til félagskvenna þannig að konur fengju röksemdir frá báðum hliðum varðandi embættið. Kristjana sendi bréf þess efnis til félagskvenna dags. 1. maí sl.  

Fundargerð haustfundarins er á heimasíðu okkar ásamt skilgreiningu á embætti National Representative, alþjóðatengli, sem tekin er úr stjórnarskrá IIW.

Að loknum fundi í Safnaðarheimilinu var haldið á Dómkirkjuloftið  þar sem Marinó Þorsteinsson form. sóknarnefndar Dómkirkjunnar tók á móti okkur og rakti sögu Dómkirkjunnar.


Á stjórnarfundi umdæmisins í desember var hafist handa við að koma saman áætlun í stórum dráttum um verðandi umdæmisþing. Einnig var ákveðið á þeim fundi að halda upp á alþjóðadag IW 13. janúar og minnast um leið 30 ára afmælis IW Umdæmis 136 á Íslandi.


Afmælishátíð var haldin í Hannesarholti, Reykjavík að viðstöddum 55 félagskonum og voru fyrstu núlifandi umdæmisstjórar hvers IW klúbbs heiðursgestir hátíðarinnar. Voru þær heiðraðar með IW barmnælu, blárri slaufu. Í tilefni afmælisins var borin fram vegleg afmælisrjómaterta skreytt IW fánum og kertum. Vigdís ritari las upp úr fundargerðum undirbúningsfunda og stofnfundar Umdæmis 136. Hátíðinni lauk með samsöng viðstaddra: „Hvað er svo glatt, sem góðra vina fundur“. Undirleik annaðist Kristjana Þ. Ásgeirsdóttir. Vilborg, gjaldkeri umdæmisins var veislustjóri.


Eftir vel yfirstaðna afmælishátíð má segja að verkefni umdæmisstjórnarinnar hafi snúist að mestu um undirbúning þessa Umdæmisþings.              


Alheimsþing Inner Wheel var haldið i Melbourne dagana 5-9 apríl sl. Diane Patchett, sendi okkur stutta skýrslu um þingið sem hafði verið hið glæsilegasta, jafnframt er bæklingur um þingið á heimasíðu International Inner Wheel. Þegar Gupta alþjóðaforseti bauð þátttakendur velkomna á 17. alþjóðlega þing IIW í Melbourne lagði hún áherslu á að þetta væri hátíð vináttu og hugmynda. Þarna komu saman fleiri en 1500 konur frá 103 löndum, sem allar eru hluti af Inner Wheel fjölskyldunni. Á þinginu sem fór mjög vel fram og án mikilla átaka, voru fjölmörg erindi flutt, m.a. var erindi sem fjallaði um að ef konur standi saman geti þær breytt miklu í heiminum, við verðum að trúa á okkur sjálfar, við eigum að vera leiðtogar, dreyma stóra drauma, setja okkur markmið og gera okkar ítrasta til að ná settu marki. Við verðum að vera duglegar í stafrænum nútíma heimi og standa vörð um verndun umhverfis okkar. Einn félagi frá Íslandi fór á þingið ásamt maka, Kristjana E. Guðlaugsdóttir.


Rætt var um hvernig efla mætti Inner Wheel og fá fleiri félaga í IW .

Samfélagslegt verkefni næstu ára 2018-2021 verður Caring for Women and Girls, eða umhyggja fyrir konum og stúlkum. Styrkar og sterkar konur og stúlkur gagnast öllu þjóðfélaginu. Við eigum ekki bara að þakka forfeðrum okkar, heldur einnig formæðrum.


Einkunnarorð IIW fyrir næsta ár 2018-2019 er „Empower and evolve“ – lauslega þýtt, styrkjum og þróum.


Næsti alþjóðafundur verður haldinn í Jaipur á Indlandi árið 2021 og verður Christine Kiry frá Ástralíu næsti alþjóðaforseti. Haldinn verður árlegur Evrópufundur IW í Stavanger í september nk.


Okkur hefur borist fyrirspurn frá Margareta Wesslau, IW Svíþjóð um hvort við séum, ásamt hinum Norðurlandaþjóðunum, tilbúnar að  sameinast um eitthvert ákveðið samnorrænt góðgerðarverkefni. Hún nefnir að eftir því sem styrkurinn er veglegri því sýnilegri séum við á heimsvísu til mótvægis við Austurlönd fjær.

Við í umdæmissstjórninni teljum ekki tímabært að taka þátt í samnorrænu góðgerðarverkefni að svo stöddu, vegna fjárskorts. Umdæmisstjórn mun svara þessari fyrirspurn og útskýra afstöðu sína bréflega að loknu umdæmissþingi.


Ágætu félagskonur, ég vil þakka ykkur fyrir samveruna á liðnu starfsári. Þetta hefur verið bæði skemmtilegt og gefandi og vil ég þakka sérstaklega meðstjórnendum mínum, þeim Vigdísi, Vilborgu, Mörtu Maríu og Hrund fyrir frábært samstarf og hjálparhellunum okkar í IW Reykjavík fyrir þeirra framlag við aðstoð og undirbúning þinghaldsins.


Það eru sannkölluð forréttindi að vera félagi í IW þar sem vináttan dafnar og félagsandinn fær að njóta sín. Það er von mín og trú að svo megi verða um ókomin ár. Höldum áfram að njóta félagsskaparins. Það hefur margoft sýnt sig að okkur líður vel saman og þetta kerfi er að virka vel fyrir okkur sem viljum rækta vináttuna, auka mannleg samskipti og auka alþjóðlegan skilning. 


Ég óska nýrri umdæmisstjórn velfarnaðar á komandi starfsári og öllum félagskonum Inner Wheel nær og fjær farsældar um ókomin ár.


Þakka ykkur fyrir.

sunnudagur 16 júní 06 2019
Nýjustu fréttir
Gleðilegt sumar kæru Inner Wheel konur.Ég vil minna á umdæmisþingið, sjá nánar undir...
13. janúar hittust 52 Inner Wheel konur frá öllum klúbbunum í Umdæmi 136 í Hannesarholti og...
Haldið verður upp á alþjóðadag IW þann 13. janúar 2018 kl. 12 á hádegi í...